Leikmaður United snerti fræga skiltið á Anfield – Afsakaði sig á Instagram

Weghorst með boltann í leiknum á sunnudaginn.
Weghorst með boltann í leiknum á sunnudaginn. AFP/Paul Ellis

Hollendingurinn Wout Weghorst, framherji enska liðsins Manchester United, átti eins og aðrir liðsfélagar hans ekki sinn besta dag á sunnudaginn er liðið tapaði fyrir erkifjendum sínum í Liverpool, 7:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Eftir leik fór myndband í dreifingu þar sem Weghorst sást snerta hið fræga This Is Anfield-skilti sem hangir á veggnum beint fyrir ofan göngin þar sem leikmenn ganga til vallar á Anfield. 

Það er margra ára gömul hefð að leikmenn Liverpool snerti skiltið á leið sinni til vallar en þá einungis þeir sem hafa unnið titil með félaginu. Hingað til hefur það ekki þekkst að leikmenn andstæðinganna snerti skiltið, hvað þá leikmenn Manchester United.

Vegna úrslita leiksins lítur atvikið enn verr út og hefur verið mikil umræða um Weghorst á samfélagsmiðlum. Þar hefur verið sagt að hann hafi verið mikill stuðningsmaður Liverpool í æsku og hafi hreinlega ekki getað staðist freistinguna að snerta skiltið.

Leikmaðurinn svaraði hins vegar fyrir sig á Instagram í dag þar sem hann sagði að hann hafi einungis verið að reyna að komast inn í hausinn á liðsfélaga sínum í hollenska landsliðinu, Virgil van Dijk, varnarmanni Liverpool.

„Vanalega svara ég ekki fyrir mig varðandi svona mál í fréttum en í þetta skiptið verð ég að gera það því þið stuðningsmenn United skiptið mig öllu máli. Ég vil því leiðrétta þetta myndskeið sem er í dreifingu.

Ég veit það úr landsliðinu að Virgil snertir alltaf þetta skilti. Það eina sem ég ætlaði að gera var að koma í veg fyrir að hann næði því fyrir þennan leik og reyna að pirra hann þannig. 

Sem barn var ég stuðningsmaður Twente og í dag er ég stoltur leikmaður Manchester United. Það verður aldrei hægt að setja spurningarmerki við metnað minn fyrir þessu frábæra félagi.

Sunnudagurinn var hræðilegur dagur fyrir okkur öll. Við erum að gera allt sem við getum til að bæta upp fyrir þennan leik á næstu vikum. Við munum koma til baka saman og ná markmiðum okkar á þessu tímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert