John W. Henry, eigandi enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að félagið muni ekki eyða um efni fram í sumar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hugsanleg leikmannakaup Liverpool í sumar en Jude Bellingham er sagður efstur á óskalista félagsins og kostar hann í kringum 120 milljónir punda.
Hollenski varnarmaðurinn Virgil van Dijk er sem stendur dýrasti leikmaður í sögu félagsins en Liverpool borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir hann í janúar 2018.
„Við munum halda áfram að byggja upp félagið, innan skynsamlegra marka,“ sagði Henry í samtali við Liverpool Echo.
„Við höfum séð mörg félög, á undanförnum árum, eyða stjarnfræðilegum upphæðum en við munum halda áfram að vera skynsamir þegar kemur að útgjöldum félagsins.
Við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni og við munum halda áfram að fjárfesta í innviðum félagsins eins og til dæmis æfingasvæðinu og leikvanginum,“ bætti Henry við.