Stærstu lið Englands berjast um varnarmann

Josko Gvardiol.
Josko Gvardiol. AFP/Ronny Hartmann

Knattspyrnumaðurinn Josko Gvardiol er eftirsóttur þessa dagana en hann er samningsbundinn RB Leipzig í Þýskalandi.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Gvardiol sló í gegn með Króatíu á heimsmeistaramótinu í Katar á síðasta ári.

Romano greinir frá því að Chelsea, Liverpool og Manchester City hafi öll áhuga á leikmanninum sem er einungis 21 árs gamall.

Miðvörðurinn er uppalinn hjá Dinamo Zagreb en hann gekk til liðs við Leipzig sumarið 2020 og á að baki 75 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.

Þá á hann að baki 19 A-landsleiki fyrir Króatíu þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann kostar í kringum 70 milljónir punda og er samningsbundinn Leipzig til sumarsins 2027.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert