Vill taka fyrirliðabandið af Fernandes

Bruno Fernandes átti ekki sinn besta dag á sunnudaginn.
Bruno Fernandes átti ekki sinn besta dag á sunnudaginn. AFP/Paul Ellis

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Chris Sutton vill taka fyrirliðabandið af portúgalska miðjumanninum Bruno Fernandes eftir frammistöðu hans með Manchester United gegn Liverpool um helgina.

Manchester United sá aldrei til sólar þegar liðin mættust á Anfield á sunnudaginn var í ensku úrvalsdeildinni en leiknum lauk með 7:0-sigri Liverpool.

Fernandes átti ekki sinn besta leik en hann hefur borið fyrirliðabandið hjá félaginu frá því að Harry Maguire missti sæti sitt í byrjunarliðinu.

Varð sér til skammar

„Það eru aðrir leikmenn hjá félaginu sem eru betur til þess fallnir að bera fyrirliðabandið,“ sagði Sutton í samtali við BBC eftir leikinn.

„Hann varð sér til skammar. Stefan Bajcetic labbaði fram hjá honum og Fernandes nennti ekki að elta hann einu sinni. Fyrir mér var það augnablikið sem fyllti mælinn.

Sama hversu lélegan leik þú eða liðið er að eiga þá eltir þú manninn þinn, sérstaklega ef þú ert fyrirliði liðsins. Hann á aldrei að bera bandið aftur hjá félaginu,“ bætti Sutton við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert