Nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen sem hefur farið á kostum með Napoli á Ítalíu í vetur segir að draumurinn sé að komast í ensku úrvalsdeildina.
Osimhen, sem er 24 ára gamall, hefur skorað 21 mark í 26 leikjum með Napoli í vetur og á sinn þátt í yfirburðum liðsins í ítölsku A-deildinni þar sem meistaratitillinn blasir við því þó enn séu þrettán umferðir eftir. Napoli er með fimmtán stiga forskot á Inter Mílanó á toppnum.
Osimhen hefur skorað 19 af mörkunum í A-deildinni þar sem hann er markahæstur allra, fimm mörkum á undan næsta manni sem er Lautaro Martínez hjá Inter.
Nígeríumaðurinn sagði á fréttamannafundi að hann legði afar hart að sér til þess að draumur sinn um að leika í ensku úrvalsdeildinni gæti ræst fljótlega.
Frammistaða hans hefur að vonum vakið áhuga á Englandi. Hann hefur verið orðaður við Manchester United og þá segja enskir fjölmiðlar að Osimhen sé efstur á óskalista Arsenal ásamt Declan Rice hjá West Ham.