Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fabinho, miðjumaður Liverpool, segir að honum þætti rökrétt ef landi hans Roberto Firmino yrði hjá félaginu til frambúðar.
Ekki er útlit fyrir að Fabinho verði að ósk sinni þar sem Firmino hefur ákveðið að róa á önnur mið í sumar þegar samningur hans við Liverpool rennur út.
„Að mínu mati er hann manneskja sem ætti að vera hjá Liverpool að eilífu. Bobby er einstök manneskja. Það er frábært að hafa hann sem liðsfélaga. Hann er manneskja sem öllum líkar vel við.
Hann hefur verið mér mjög mikilvægur frá því að ég kom hingað. Ég vil ekki ræða framtíðina of mikið, við skulum frekar njóta síðustu mánaðanna sem við erum með hann hérna,“ sagði Fabinho í samtali ESPN í Brasilíu.
Hann vonar enn að Firmino snúist hugur og semji að nýju en veit þó sem er að það eru litlar sem engar líkur á því.
„Ég veit ekki hvort staðan geti enn breyst en við göntumst með honum. Við þurfum að njóta þess á meðan við erum með leikmanninn á mála hjá okkur því hann er virkilega einstök manneskja,“ bætti Fabinho við.