Rannsakaður fyrir að bera sig á bar

Kyle Walker í leik með Manchester City á dögunum.
Kyle Walker í leik með Manchester City á dögunum. AFP/Paul Ellis

Enski knattspyrnumaðurinn Kyle Walker, hægri bakvörður ríkjandi Englandsmeistara Manchester City, sætir nú rannsókn lögreglunnar í Cheshire-sýslu, grunaður um að hafa berað sig að neðan fyrir framan tvær konur á bar.

Walker var staddur á knæpu síðastliðið laugardagskvöld eftir að Man. City hafði lagt Newcastle United að velli í hádeginu.

Myndskeið úr öryggismyndavél á barnum, þar sem Walker virðist girða niður um sig og sýna konunum tveimur kynfæri sín, hefur gengið manna á milli á samfélagsmiðlum í dag.

Á Bretlandseyjum telst það til kynferðisbrots þegar manneskja sýnir annarri kynfæri sín viljandi með það fyrir augum að koma henni úr jafnvægi eða valda óþægindum. Refsing getur numið allt að tveggja ára fangelsisvist.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Cheshire segir að henni sé kunnugt um dreifingu myndskeiðsins þar sem berun kynfæra á sér stað, sem er talin hafa átt sér stað á Wilmslow-svæðinu, skammt frá miðbæ Manchester.

Þar segir einnig að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og hefur enginn verið handtekinn að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert