Þurfum að endurstilla okkur

Marcus Rashford reynir að komast fram hjá Virgil van Dijk …
Marcus Rashford reynir að komast fram hjá Virgil van Dijk í leiknum á Anfield á sunnudaginn. AFP/Paul Ellis

Marcus Rashford, aðalmarkaskorari Manchester United, segir að liðið þurfi að endurstilla sig eftir sjö marka skellinn gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn var.

„Leikir Liverpool og United eru einstakir. Þeir snúast ekki um formið á liðunum eða leikmönnunum. Þetta eru sérstakir fótboltaleikir sem eru útkljáðir á þeim 90-95 mínútum sem þeir standa yfir,“ sagði Rashford á fréttamannafundi í dag en United býr sig undir fyrri leikinn við Real Betis frá Spáni í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar, sem fram fer á Old Trafford annað kvöld.

„Við hefðum getað verið í allt annarri stöðu í hálfleik. Ég nýtti ekki færi eftir sendingu frá Luke Shaw til að koma okkur 1:0 yfir, og við fengum tvö til þrjú önnur tækifæri til að ná forystunni í fyrri hálfleik.

Við vorum ekki í slæmri stöðu, við töldum að við myndum líka skapa okkur færi í seinni hálfleik, en svona er Liverpool. Þeir geta tekið leiki í sínar hendur og það gerðist.

Nú þurfum við að endurstilla okkur. Það er það eina í stöðunni, það hefur enga þýðingu að velta sér upp úr því hvað gerðist, því við getum ekki breytt því. Við ýtum því bara á endurstillingartakkann, förum í grunnatriðin og reynum að vinna leikinn á fimmtudaginn,“ sagði Marcus Rashford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert