Knattspyrnustjórinn Mikel Arteta kemur til greina sem næsti stjóri spænska stórliðsins Real Madrid.
Það er spænski fjölmiðlamaðurinn Tomás González-Martin sem greinir frá þessu en Carlo Ancelotti, núverandi stjóri Real Madrid, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að tímabili loknu.
Arteta, sem er fertugur, hefur stýrt Arsenal frá árinu 2019 en liðið situr sem stendur í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 63 stig, fimm stigum meira en Englandsmeistarar Manchester City.
Real Madrid, sem er ríkjandi Spánar- og Evrópumeistari, hefur ekki spilað vel í deildinni heimafyrir á leiktíðinni en liðið er með 53 stig, níu stigum minna en topplið Barcelona.
Arteta er uppalinn hjá Barcelona en hann var aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá City áður en hann tók við Arsenal.