Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, gaf sterklega í skyn í gærkvöld að hann gæti farið frá félaginu áður en þessu tímabili lýkur.
Tottenham féll út úr Meistaradeildinni í gærkvöld þegar liðið gerði markalaust jafntefli við AC Milan í Lundúnum, en Ítalirnir unnu einvígið 1:0 samanlagt.
„Ég er með samning við Tottenham og ég virði þann samning. Þegar tímabilinu lýkur verða málin rædd," sagði Conte eftir leikinn þegar hann var spurður um framtíð hans hjá félaginu.
„Sjáum til hvernig tímabilið endar. Kannski losa þeir sig við mig áður en því lýkur. Forráðamenn Tottenham vita hverjar mínar skoðanir eru og í lok tímabilsins munum við funda og komast að niðurstöðu,“ sagði Conte.