Manchester United verður án tveggja leikmanna í kvöld þegar liðið tekur á móti Real Betis frá Spáni í fyrri viðureign liðanna í Evrópudeildinni í fótbolta.
Anthony Martial er enn þá frá keppni vegna meiðsla þó hann sé byrjaður að æfa á ný og þá er austurríski miðjumaðurinn Marcel Sabitzer ekki leikfær í kvöld.
Fyrir utan þá eru Christian Eriksen og Donny van de Beek á sjúkralistanum eins og áður en það er langt í að þeir snúi aftur.
Real Betis saknar síns besta sóknarmanns en Nabil Fekir spilar ekki meira með liðinu á þessu tímabili vegna meiðsla.