Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hann hafi verið hissa á ákvörðun brasilíska sóknarmannsins Roberto Firmino að hafna samningstilboði félagsins og róa á önnur mið í sumar.
„Já, hann sagði mér frá þessu. Ég var svolítið hissa já. Ég var ekki sleginn yfir því. Þetta var eðlilegt, þetta hefði getað farið á tvo mismunandi vegu.
Ég sýni þessari ákvörðun mikla virðingu. Þetta er fullkomlega eðlilegt þegar við höfum átt samband til svona langs tíma,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.
Firmino var keyptur til Liverpool frá Hoffenheim sumarið 2015. Nokkrum mánuðum síðar tók Klopp við stjórnartaumunum hjá Liverpool og hafa þeir átt afar blómlegu samstarfi að fagna allar götur síðan.
„Ég elskaði móttökurnar sem hann fékk [í 7:0-sigri á Manchester United um síðustu helgi]. Nú viljum við ljúka dásamlegri sögu á jákvæðum nótum,“ bætti Klopp við.
Brassinn hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool á tímabilinu en hefur þrátt fyrir það leikið afar vel á því. Er hann búinn að skora tíu mörk og leggja upp fimm til viðbótar í 27 leikjum í öllum keppnum til þessa.
Þar af eru átta mörk og fjórar stoðsendingar í 18 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.