Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, segir að öllum hjá félaginu dreymi um að tryggja liðinu sæti í Evrópukeppni.
Brighton er sem stendur í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Fulham í því sjöunda, og á auk þess þrjá leiki til góða.
Sjöunda sætið gefur keppnisrétt í undankeppni Sambandsdeildar UEFA.
„Við eigum okkur draum og ég hef trú á því að við getum skráð okkur í sögubækur þessa félags. Þetta er mikil áskorun.
Þetta verður erfitt en við erum með góðan leikmannahóp sem inniheldur marga unga leikmenn, og við erum sterkir.
Við viljum gjarna komast í Evrópukeppni en við verðum að taka einn leik í einu,“ sagði De Zerbi á blaðamannafundi í dag.
Brighton heimsækir Leeds United í deildinni á morgun.