Rashford valinn leikmaður mánaðarins

Marcus Rashford skoraði fimm mörk í fjórum deildarleikjum í febrúar.
Marcus Rashford skoraði fimm mörk í fjórum deildarleikjum í febrúar. AFP/Oli Scarff

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, hefur verið útnefndur leikmaður febrúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Er þetta í þriðja sinn á yfirstandandi tímabili sem Rashford, sem hefur leikið frábærlega á því, er valinn leikmaður mánaðarins. Var hann einnig valinn leikmaður mánaðarins í janúar og september.

Rashford jafnaði þar með met Mohamed Salah, sóknarmanns Liverpool, sem var sömuleiðis útnefndur leikmaður mánaðarins í þrígang tímabilið 2017/2018.

Í febrúarmánuði var Rashford næsta óstöðvandi og skoraði fimm mörk í fjórum deildarleikjum. Þrír þeirra unnust og einum lauk með jafntefli og fór Man. United því taplaust í gegnum mánuðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert