Chelsea vann og Kane skoraði tvö

Matteo Kovacic fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Matteo Kovacic fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Darren Stanles

Chelsea og Tottenham unnu er fjórir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta klukkan þrjú í dag. 

Chelsea vann sterkan útisigur á Leicester, 3:1. Fyrrum leikmaður Leicester, Ben Chilwell, kom Chelsea yfir á 11. mínútu leiksins með hörkuskoti. Patson Daka svaraði fyrir Leicester á 39. mínútu, einnig með hörkuskoti. 

Kai Havertz kom svo Chelsea í 2:1 undir lok fyrri hálfleiksins er hann potaði boltanum yfir Danny Ward í markinu. Króatinn Matteo Kovacic innsiglaði svo sigur Chelsea á 78. mínútu með þrumuskoti. 

Chelsea er í tíunda sæti deildarinnar með 37 stig en Leicester er í því 16. með 24. 

Harry Kane skoraði tvö mörk í heimasigri Tottenham á Nottingham Forest, 3:1. Mörk Kane komu á 19. og 35. mínútu. 

Suður-Kóreumaðurinn Heung-Min Son þrefaldaði svo forystu Tottenham á 62. mínútu og sigurinn í höfn. 

Fyrirliði Nottingham Forest, Joe Worrall, minnkaði muninn fyrir Nottingham Forest á 81. mínútu, 1:3, en það voru lokatölur. 

Tottenham er nú með sex stiga forystu á Liverpool í fjórða sæti, með 48 stig. Nottingham Forest er í 14. sæti með 26 stig. 

Dwight McNeil skoraði sigurmarkið á fyrstu mínútu leiksins í gífurlega mikilvægum sigri Everton á Brentford, 1:0, á Goodison Park.

Everton er með 25 stig í 15. sæti en Brentford er með 38 í níunda. 

Brighton og Leeds gerðu 2:2 jafntefli þar sem Patrick Bamford og Jack Harrison settu mörk Leeds. Alex Mac Allister skoraði mark fyrir Brighton ásamt því að Jack Harrison setti boltann í eigið net. 

Brighton er í sjöunda sæti með 39 stig en Leeds er í 19. sæti með 23. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert