Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro fer í fjögurra leikja bann eftir að hafa fengið beint rautt spjald í markalausu jafntefli Manchester United og Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Casemiro fékk rauða spjaldið fyrir ljóta tæklingu á Carlos Alcaraz, leikmanni Southampton en upphaflega fékk hann gult. Eftir að Anthony Taylor, dómari leiksins, hafði skoðað atvikið aftur í VAR-skjánum komst hann að þeirri niðurstöðu að tæklingin verðskuldaði rautt spjald.
Fyrr á tímabilinu fékk Casemiro beint rautt spjald fyrir að taka utan um háls Will Huges, leikmanns Crystal Palace. Fyrir það fékk hann þriggja leikja bann.
Reglurnar í ensku úrvalsdeildinni eru þannig að fyrir beint rautt spjald færðu þriggja leikja bann ef um ljóta tæklingu eða annað slíkt er að ræða. Fyrir annað rauða spjaldið er svo fjögurra leikja bann.
Casemiro mun því missa af leikjum United gegn Fulham í enska bikarnum og Newcastle, Brentford og Everton í ensku úrvalsdeildinni.