Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United ætla ekki að áfrýja rauða spjaldinu sem miðjumaðurinn Casemiro fékk í leik liðsins gegn Southampton um nýliðna helgi.
Leiknum lauk með markalausu jafntefli í Manchester en Casemiro fékk að líta gula spjaldið, áður en VAR-myndbandsdómgæslan greip í taumana og dómari leiksins Anthony Taylor ákvað að breyta spjaldinu úr gulu í rautt.
Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem miðjumaðurinn fær að líta rauða spjaldið en þetta þýðir að hann er á leið í fjögurra leikja bann.
Hann missir því af leiknum gegn Fulham í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar, sem og leikjum gegn Newcastle, Brentford og Everton í ensku úrvalsdeildinni.