Þó Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eigi enn eftir níu leiki í ensku B-deildinni í knattspyrnu á þessu tímabili þurfa þeir aðeins níu stig í viðbót til að gulltryggja endurkomu sína í úrvalsdeildina.
Burnley lagði Hull örugglega á útivelli í kvöld, 3:1, og er með algjöra yfirburðastöðu á toppnum. Burnley er með 83 stig, Sheffield United 70 og Middlesbrough 64 stig í þriðja sætinu eftir 37 umferðir af 46.
Ef Middlesbrough vinnur alla níu leiki sína þarf Burnley níu stig enn en mjög ólíklegt er að liðið þurfi þann stigafjölda til að fara upp.
Jóhann lék í 87 mínútur með Burnley í kvöld. Nathan Tella var maður kvöldsins því hann skoraði öll þrjú mörk liðsins sem komst í 3:0 áður en Hull lagaði stöðuna í uppbótartíma leiksins.