Sóknarmaðurinn Eddie Nketiah verður ekki með Arsenal næstu vikurnar en knattspyrnustjóri félagsins staðfesti það í dag.
Nketiah meiddist í leik gegn Everton 1. mars og hefur verið frá keppni síðan. Arteta sagði á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Sporting Lissabon í Evrópudeildinni annað kvöld að meiðslin væru leiðinleg, hefðu þó getað verið mun verri, en ljóst sé að nokkrar vikur séu í að framherjinn verði leikfær.
Þetta er slæmt fyrir Arsenal sem er í hörðum slag við Manchester City um enska meistaratitilinn ásamt því að vera í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar þar sem það gerði jafntefli, 2:2, við Sporting í fyrri leiknum á útivelli.
Nketiah, sem er 23 ára gamall, hefur spilað 23 leiki með Arsenal í úrvalsdeildinni í vetur, 14 þeirra sem varamaður, og skorað í þeim fjögur mörk. Að auki hefur hann skorað þrjú mörk í bikarleikjum og tvö mörk í Evrópudeildinni á þessu tímabili og samtals spilað 32 mótsleiki.