Sjeikinn Jassim bin Hamad Al-Thani, stjórnarformaður eins stærsta banka Katars, heimsótti forsvarsmenn Manchester United í gær eftir að hafa í síðasta mánuði lagt fram tilboð í enska félagið.
Viðræður fjárfestahópsins, sem sjeikinn er í forsvari fyrir, stóðu yfir í um tíu klukkustundir og gengu vel.
Samkvæmt Sky Sports má búast við því að allir áhugasamir kaupendur leggi fram nýtt og endurbætt tilboð innan næstu tíu daga er formlegt söluferlið á félaginu færist á næsta stig.
Al-Thani er sagður harðákveðinn í að eignast Man. United með það fyrir augum að koma félaginu aftur á þann stall sem það var undir stjórn Sir Alex Ferguson og styrkja um leið innviði til muna, þar á meðal leikvanginn og æfingasvæðið.
Eigendur Man. United, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, tilkynntu formlega um að félagið, eitt það verðmætasta í heimi, væri til sölu í nóvember síðastliðnum.