Tæpt verður að norski sóknarmaðurinn Erling Braut Haaland verði orðinn heill af meiðslum sínum fyrir leik Manchester City gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Leikurinn fer fram 1. apríl næstkomandi en Haaland dró sig á dögunum úr norska landsliðshópnum vegna nárameiðsla.
Manchester City er í harðri toppbaráttu ásamt Arsenal í deildinni en Liverpool hefur verið í vandræðum í vetur, og situr í sjötta sæti, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.
Haaland hefur verið algjörlega magnaður á tímabilinu en hann er lang markahæsti leikmaður deildarinnar með 28 mörk í 26 leikjum.