Erling Haaland, framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester City, hefur komið sér í vandræði eftir að hafa notað farsíma sinn undir stýri.
Það er BBC sem greinir frá þessu en í gær birti The Sun myndband af leikmanninum í símanum undir stýri.
Lögregluyfirvöld í Manchester sendu svo frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þau segjast vera að rannsaka mál norska framherjans.
Verði hann fundinn sekur þá þarf hann að borga 200 punda sekt og þá mun hann einnig fá sex punkta.
Haaland, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Manchester City frá Borussia Dortmund síðasta sumar en hann hefur skorað 42 mörk fyrir félagið í öllum keppnum í 37 leikjum.