Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United ætla sér að leggja fram tilboð í enska framherjann Harry Kane í sumar.
Það er enski miðillinn Mirror sem greinir frá þessu en Kane, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.
Í frétt Mirror kemur meðal annars fram að Erik ten Hag, stjóri United, sé mikill aðdáandi enska framherjans og að hann eigi frumkvæðið að því að lagt verði fram tilboð í leikmanninn.
United ætlar sér að bjóða 80 milljónir punda í leikmanninn en hann er uppalinn hjá Tottenham þar sem hann hefur skorað 271 mark í 425 leikjum með félaginu í öllum keppnum.
Kane er samningsbundinn Tottenham til sumarsins 2024 en talið er næsta víst að félagið muni selja hann í sumar þar sem hann er ekki líklegur til þess að framlengja samning sinn ef liðinu mistekst að vinna bikar í ár.