Bukayo Saka, vængmaður toppliðs Arsenal, hefur verið útnefndur besti leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Saka, sem er 21 árs, lék frábærlega fyrir uppeldisfélagið í mánuðinum sem er að renna sitt skeið er hann skoraði þrjú mörk og lagði upp tvö önnur í fjórum leikjum.
Arsenal vann alla fjóra leiki sína í mánuðinum og er í afar góðri stöðu á toppnum, með átta stiga forskot á ríkjandi Englandsmeistara Manchester City, er liðið freistar þess að vinna sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 19 ár.
Er þetta í fyrsta sinn sem Saka er útnefndur leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni.