Jóhann Berg Guðmundsson og liðsfélagar hans í Burnley þurfa átta stig til viðbótar í síðustu átta leikjum sínum í ensku B-deildinni í fótbolta til að gulltryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Burnley þurfti að láta sér nægja markalaust jafntefli á heimavelli gegn Sunderland í kvöld. Þrátt fyrir að tapa stigum, nægir Burnley átta stig til viðbótar til að fara upp um deild.
Jóhann Berg byrjaði á bekknum hjá Burnley en kom inn á sem varamaður á 67. mínútu. Burnley er á toppnum með 84 stig, 14 stigum meira en Sheffield United sem er í öðru sæti.