Crystal Palace vann í dag sinn fyrsta leik á árinu 2023 í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið lagði Leicester með dramatískum hætti á heimavelli sínum, Selhurst Park.
Ricardo Pereira kom Leicester yfir á 56. mínútu en aðeins þremur mínútum síðar skoraði markvörðurinn Daniel Iversen sjálfsmark og jafnaði fyrir Crystal Palce. Jean-Philippe Mateta skoraði svo sigurmark Palace á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Hinn 75 ára gamli Roy Hodgson tók við Palace á dögunum og hann fer vel af stað með Palace-menn, sem fjarlægðust mesta hættusvæðið með sigrinum.
Bournemouth er komið upp úr fallsæti með 2:1-heimasigri á Fulham. Andrea Pereira kom Fulham yfir á 16. mínútu en Marcus Tavernier jafnaði á 50. mínútu og Dominic Solanke skoraði sigurmarkið á 79. mínútu.
Nottingham Forest og Wolves eru enn í fallbaráttu eftir 1:1-jafntefli í Nottingham. Brennan Johnson kom Forest yfir á 38. mínútu, en Daniel Podence jafnaði á 83. mínútu.
Loks skildu Brighton og Brentford jöfn í fjörugum leik, 3:3. Pontus Jansson og Ivan Toney komu Brentford yfir í tvígang í fyrri hálfleik en þeir Kaoru Mitoma og Danny Welbeck jöfnuðu fyrir Brighton og var staðan í hálfleik 2:2.
Ethan Pinnock kom Brentford yfir í þriðja sinn á 49. mínútu en Alexis Mac Allister skoraði þriðja jöfnunarmark Brighton með marki úr víti á lokamínútunni og þar við sat.