Eiður: Andstæðingurinn finnur fyrir óörygginu hjá Chelsea

Í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi var rætt um skort á sjálfstrausti hjá Chelsea, sem tapaði 0:2 fyrir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag.

„Mistök verða að mörkum á móti þeim. Andstæðingurinn finnur líka fyrir þessu óöryggi hjá Chelsea og nýtir sér það. Aston Villa gerði það frábærlega,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Hann nefndi þá dæmi um þegar Mykhailo Mudryk slapp einn í gegn en skaut of snemma og Emi Martínez í marki Villa varði auðveldlega, sem Eiði Smára þótti endurspegla fullkomlega hversu lítið sjálfstraustið hjá leikmönnum Chelsea er yfir höfuð.

Umræðuna má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan, en skömmu eftir að þættinum lauk var Graham Potter vikið úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert