„Hvað get ég sagt? Fíllinn í herberginu snýr líklega að því hvers vegna ég sit hér enn í þessari klikkuðu veröld, síðasti maðurinn sem stendur enn!“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Báðum liðum hefur ekki gengið sem skyldi á tímabilinu og fór svo að Graham Potter var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea í gær.
„Ég átta mig á því að ég sit hér vegna fortíðarinnar og ekki vegna þess sem við höfum sýnt á þessu tímabili. Ef þetta væri mitt fyrsta tímabil væri þetta aðeins öðruvísi.
Við erum með skarpa eigendur sem skilja aðstæðurnar. Það væri betra að spyrja þá af hverju ég sit hér enn!“ sagði Klopp er hann var spurður út í brottrekstra Brendan Rodgers og Potter úr stjórastöðum sínum hjá Leicester City og Chelsea í gær.
Spurður hvort hann óttaðist að missa starf sitt líkt og Rodgers og Potter sagði Klopp: „Nei, það geri ég ekki og ég held að Graham hafi ekki óttast það. Það er engin ástæða til að óttast.
Ég er 100 prósent hér til þess að skila úrslitum. Ég veit að ég er enn hér vegna þess sem átti sér stað á undanförnum árum og ég kann ekki vel við að ég hafi þurft að reiða mig á það.
Er það sanngjarnt? Við sjáum til en við þurfum að laga hlutina. Við getum ekki bara haldið áfram að spila eins og við gerum inn á milli. Það er ekki í boði.
Ég er mjög vonsvikinn með okkur og að við gerum þetta, en það hefur gerst. Við þurfum að finna leið til baka og það er það sem við erum stöðugt að vinna að.“