Óvænt hetja Everton gegn Tottenham

Cristian Romero og Dwight McNeil eigast við.
Cristian Romero og Dwight McNeil eigast við. AFP/Peter Powell

Michael Keane reyndist hetja Everton þegar liðið tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í kvöld.

Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en miðvörðurinn skoraði jöfnunarmark leiksins á 90. mínútu og tryggði þannig liði sínu dýrmætt stig í botnbaráttunni.

Harry Kane skoraði mark Tottenham úr vítaspyrnu á 68. mínútu en skömmu áður höfðu Everton-menn misst Abdoulaye Doucouré af velli með rautt spjald.

Lucas Moura, sóknarmaður Tottenham, fór sömu leið eftir 88 mínútur.

Það var svo Michael Keane sem jafnaði leikinn með glæsilegu langskoti á 90. mínútu og þar við sat.

Everton hífir sig upp úr fallsæti með þessu stigi og situr nú í 15. sæti með 27 stig. Tottenham fór upp um eitt sæti og situr nú í 4.sæti.

Everton 1:1 Tottenham opna loka
90. mín. Michael Keane (Everton) skorar Þvílíkt og annað eins. Keane þrumar inn af löngu færi, beint upp í markhornið. Þetta er alvöru dramatík.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert