Luis Díaz gæti verið klár í slaginn þegar Liverpool tekur á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í Liverpool á sunnudaginn kemur.
Þetta tilkynnti Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, á blaðamannafundi liðsins í dag en Díaz, sem er 26 ára gamall, hefur verið frá keppni vegna hnémeiðsla síðan í október á síðasta ári.
Kólumbíski sóknarmaðurinn gekk til liðs við Liverpool frá Porto í janúar 2022 en Liverpool borgaði 37,5 milljónir punda fyrir hann.
„Það er möguleiki að hann verði orðinn klár í slaginn gegn Arsenal um næstu helgi,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.
„Hvort hann verði klár þarf að koma í ljós en ef ekki þá verður hann orðinn klár strax eftir helgina,“ bætti Klopp við.