Bruno Saltor mun stýra Chelsea þegar liðið tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í Lundúnum á morgun.
Saltor, sem er 42 ára gamall, var einn af aðstoðarmönnum Grahams Potters hjá félaginu en Potter var rekinn frá félaginu í gær.
Ekkert hefur verið gefið út um það hversu lengi Saltor mun stýra liðinu en Julian Nagelsmann og Mauricio Pochettino hafa báðir verið sterklega orðaðir við stjórastöðuna hjá Chelsea í dag.
Saltor lagði skóna á hilluna árið 2019 eftir sjö tímabil með Brighton í úrvalsdeildinni þar sem hann kynntist Graham Potter, fyrrverandi stjóra Chelsea.
Chelsea er sem stendur með 38 stig í ellefta sæti deildarinnar en Liverpool er í því áttunda með 42 stig.