Ekki stórkostlegasta jafntefli sem ég hef séð

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP/Glyn Kirk

„Þetta var skref í rétta átt,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við Sky Sports eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum í kvöld.

„Þetta var ekki stórkostlegasta jafntefli sem ég hef séð. Ég sá tvö frábær jafntefli hjá þessum tveimur liðum á síðustu leiktíð í úrslitum bikarkeppninnar og deildabikarsins, það voru svakalegir leikir.

Liðin voru svipuð í kvöld en fótboltinn var allt öðruvísi þar sem það sást gaumgæfilega að bæði lið skortir mikið sjálfstraust,“ sagði Klopp

Liverpool er í áttunda sæti deildarinnar með 43 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti, en liðinu hefur ekki gengið vel á yfirstandandi tímabili.

„Að einhverju leyti þurfum við að byrja aftur á núllpunkti ef svo má segja. Við erum á ákveðinni vegferð núna og eins og ég sagði áðan var þetta skref í rétta átt,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert