Enska knattspyrnusambandið vill lengja átta leikja bannið sem serbneski framherjinn Aleksandar Mitrovic, leikmaður Fulham, fékk fyrir hegðun sína er liðið mætti Manchester United í enska bikarnum.
Mitrovic var í vikunni úrskurðaður í átta leikja bann fyrir að veitast að dómaranum Chris Kavanagh, sem sýndi honum rauða spjaldið í kjölfarið. Var Mitrovic ósáttur við að Manchester United fengi vítaspyrnu og Willian beint rautt spjald.
Hann var í kjölfarið úrskurðaður í átta leikja bann af aganefnd enska knattspyrnusambandsins, en forráðamenn sambandsins eru ekki sáttir með lengd bannsins og íhuga að áfrýja ákvörðuninni.
Sambandið ætlar að bíða eftir skriflegum ástæðum aganefndarinnar, áður en endanleg ákvörðun um áfrýjun verður tekin.