Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest hefur sent frá sér tilkynningu í sambandi við knattspyrnustjórann Steve Cooper.
„Það er staðreynd að félagið okkar er í erfiðri stöðu í úrvalsdeildinni en við viljum binda endi á vangaveltur og rangar fréttir fjölmiðla og staðfesta að Steve Cooper verður áfram okkar knattspyrnustjóri hjá Nottingham Forest,“ segir í tilkynningunni.
Forest tapaði fyrir Leeds, 2:1, í mikilvægum botnslag á Elland Road í gærkvöld og er fyrir vikið í 17. sæti deildarinnar með 27 stig, jafnmörg og Bournemouth sem er í 18. sæti og þar með fallsæti.
Eftir ósigurinn í gærkvöld fóru sögur á kreik um að dagar Coopers hjá félaginu væru taldir.