„Klopp verður rekinn ef gengið skánar ekki“

Jürgen Klopp á hliðarlínunni gegn Chelsea í gær.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni gegn Chelsea í gær. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, verður rekinn ef honum tekst ekki að snúa við slæmu gengi enska liðsins á næstu mánuðum.

Þetta fullyrti Simon Jordan, þáttastjórnandi hjá talkSport og fyrrverandi stjórnarformaður Crystal Palace, í útvarpsþætti sínum í dag.

Liverpool er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum og situr sem stendur í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.

Allt gott tekur enda

„Ef Klopp verður áfram stjóri Liverpool á næstu leiktíð og það verður það sama upp á teningnum hjá liðinu í október þá fer hann,“ sagði Jordan.

„Allt gott tekur enda og í október á næsta ári hefur Klopp stýrt liðinu í átta ár. Hann hefur unnið magnað starf fyrir félagið.

Tímabilið í ár hefur hins vegar verið algjör hörmung og ofan á öll slæmu úrslitin þá er liðið ekki nálægt því að spila jafnvel og það hefur gert á undanförnum árum.

Klopp verður rekinn ef gengið skánar ekki,“ bætti Jordan við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert