Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea töluðu margir hverjir um Graham Potter, fyrrverandi stjóra liðsins, sem Harry Potter.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Potter, sem er 47 ára gamall, var rekinn frá félaginu á sunnudaginn síðasta eftir fimm mánuði í starfi.
Í frétt The Athletic kemur meðal annars fram að Potter hafi ekki notið sömu virðingar og forveri hans í starfi, Thomas Tuchel, gerði.
Þá hafi margir af reyndustu leikmönnum liðsins haft litla trú á stjóranum, alveg frá því hann tók fyrst við stjórnartaumunum hjá félaginu.
Chelsea hefur ekki gengið vel á tímabilinu og situr sem stendur í ellefta sæti úrvalsdeildarinnar með 38 stig en Luis Enrique, Julian Nagelsmann, Mauricio Pochettino, Luciano Spalletti og Zinedine Zidane hafa verið orðaðir við starfið.