Frank Lampard er að taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en fyrr í dag bárust fréttir af því að Lampard, sem er 44 ára gamall, gæti mögulega tekið við félaginu eftir að Graham Potter var rekinn um síðustu helgi.
Lampard mun stýra liðinu út keppnistímabilið og gefur það eigandanum Todd Boehly og forráðamönnum félagsins meira svigrúm til þess að ráða nýjan stjóra til frambúðar í sumar.
Lampard þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa stýrt því frá 2019 til ársins 2021 áður en honum var sagt upp störfum af þáverandi eiganda félagsins, Roman Arbamovich. Þá lék hann 648 leiki fyrir félagið á árunum 2001 til 2014 þar sem hann skoraði 211 mörk.
Luis Enrique, Julian Nagelsmann, Mauricio Pochettino, Luciano Spalletti og Zinedine Zidane höfðu allir verið sterklega orðaðir við stjórastöðuna hjá félaginu síðustu daga.