Frank Lampard gæti tekið við stjórnartaumunum hjá karlaliði Chelsea í knattspyrnu að nýju og stýrt liðinu út yfirstandandi tímabil.
Talksport greinir frá því að til greina komi að gera skammtímasamning við Lampard, sem síðast stýrði Everton en var látinn taka pokann sinn þaðan í janúar síðastliðnum.
Þar á undan hafði hann stýrt Chelsea um 18 mánaða skeið en var sömuleiðis rekinn úr því starfi í janúar árið 2021.
Þeir tveir stjórar sem eru efstir á blaði hjá Chelsea, Julian Nagelsmann og Luis Enrique, eru báðir sagðir fremur vilja taka við stjórnartaumunum að tímabilinu loknu og því skoði félagið nú að fá Lampard inn til bráðabirgða.
Eftir að Graham Potter var rekinn á sunnudag stýrði Bruno Saltor, aðstoðarþjálfari Potters, liði Chelsea í markalausu jafntefli gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.