Manchester United tók á móti Brentford á Old Trafford leikvanginum í Manchester í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Heimamenn sigruðu leikinn, 1:0.
Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir lærisveina Erik Ten Hag í baráttunni um meistaradeildarsæti. Með sigrinum komust þeir í 4. sæti deildarinnar og ljóst er að barist verður fram í síðustu umferð deildarinnar um sætið eftirsótta.
Fyrir Brentford-menn þýðir tapið að þeir sitja áfram í 9. sæti deildarinnar, jafnir Liverpool að stigum með 43 stig en lakari markatölu en drengirnir úr Bítlaborginni. Brentford eru í mikilli evrópubaráttu sjálfir og geta með góðum úrslitum í lok tímabilsins komist í evrópukeppni í fyrsta sinn í 133 ára sögu félagsins.
Heimamenn voru með öll völd á vellinum í kvöld og sást það best á því að þegar fyrri hálfleikur hafði liðið höfðu þeir fengið átta hornspyrnur á móti engri hjá gestunum. Það var einmitt upp úr einni hornspyrnunni sem fyrsta mark leiksins kom. Boltinn barst á Antony sem lyfti boltanum inn fyrir vörnina þar sem Marcel Sabitzer skallaði boltann fyrir Marcus Rashford sem kláraði færið með góðu skoti. 28 mínútur liðnar og staðan orðin 1:0 fyrir Manchester United.
Eftir markið þá róaðist leikurinn mikið og ekki mikið gerðist þar til John Brooks dómari leiksins flautaði til hálfleiks.
Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri, heimamenn héldu boltanum og voru hættulegri. Á 61. mínútu gerði Thomas Frank, þjálfari Brentford, þrefalda skiptingu. Gestirnir voru hættulegri eftir þær breytingar og fékk einn varamaðurinn, Kevin Schade, besta færi þeirra á 67. mínútu. Ivan Toney spilaði hann þá í gegn og var Schade einn á móti David de Gea. Spánverjinn lokaði markinu mjög vel og varði frá Þjóðverjanum unga, staðan enþá 1:0 fyrir heimamenn.
Heimamenn sýndu mjög agaða frammistöðu það sem eftir lifði leiks og sigldu sigrinum heim að lokum, 1:0.