Callum Wilson og Joelinton fóru mikinn fyrir Newcastle þegar liðið heimsótti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á London-völlinn í Lundúnum í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Newcastle, 5:1, en þeir Wilson og Joelinton skoruðu tvö mörk hvor fyrir Newcastle.
Wilson kom Newcastle yfir strax á 6. mínútu og Joelinton bætti við öðru marki Newcastle á 13. mínútu.
Kurt Zouma minnkaði muninn fyrir West Ham á 40. mínútu og staðan því 2:1 í hálfleik, Newcastle í vil.
Wilson skoraði sitt annað mark og þriðja mark Newcastle á 46. mínútu áður en Alexander Isak bætti við fjórða markinu á 82. mínútu.
Joelinton átti svo lokaorðið í uppbótartíma þegar hann skoraði fimmta mark Newcastle og sitt annað mark í leiknum.
Newcastle er með 53 stig í þriðja sæti deildarinnar, líkt og Manchester United, en West Ham er í fimmtánda sætinu með 27 stig, jafn mörg stig og Bournemouth sem er í átjánda sætinu og jafnframt fallsæti.