Sjö leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United gætu yfirgefið félagið í sumar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en Erik ten Hag stjóri liðsins er sagður vilja hreinsa til í leikmannahópnum.
Þeir Harry Maguire, Brandon Williams, Alex Telles, Anthony Martial, Eric Bailly og Dean Henderson verða allir settir á sölulista.
Þá greinir Manchester Evening News einnig frá því að Jadon Sancho gæti yfirgefið félagið í sumar en Ten Hag er sagður vera að missa þolinmæðina gagnvart Sancho.
Sancho, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við United frá Borussia Dortmund sumarið 2021 fyrir tæplega 73 milljónir punda en hann hefur aðeins byrjað 12 leiki í deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.