Bruno Saltor bráðabirgðastjóri Chelsea var ánægður með frammistöðu sinna manna í markalausu jafntefli gegn Liverpool en sagði liðið hins vegar þurfa að bæta sig fyrir framan markið.
Chelsea hefur einungis skorað 29 mörk í jafnmörgum deildarleikjum á tímabilinu hingað til.
„Þetta snýst um hvernig leikmenn afgreiða færin. Þetta eru manneskjur og sjálfstraustið verður að vera fyirr hendi. Við þurfum bara að halda áfram að hjálpa strákunum,“ sagði Bruno í samtali við Sky Sports eftir leik gærkvöldsins.
Chelsea var sterkari aðilinn í leiknum þar sem nokkur dauðafæri fóru forgörðum og tvö mörk voru réttilega dæmd af liðinu.
„Þeir hafa gengið í gegnum margt, þetta tímabil hefur verið þeim erfitt. Ég átta mig á því að þeir klúðruðu færum en það sem þeir gátu haft mest áhrif á var hugarfarið og framlagið, sem var til staðar.
Þeir skora mikið á æfingu en það að mæta til leiks er allt annað. Þetta er nokkuð sem við höfum verið að vinna að en við þurfum að halda áfram að gera það,“ bætti hann við.