Daniel Podence, leikmaður Wolves, hefur þvertekið fyrir það að hafa hrækt á Brennan Johnson, leikmann Nottingham Forest, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á dögunum.
Atvikið átti sér stað á 90. mínútu leiksins og var skoðað í VAR. Dómarar leiksins sáu þó ekkert athugavert og því var ekkert gert í málinu,
Í viðtali eftir leik sagði Johnson að hann hafi fundið fyrir einhverju lenda á andliti sínu en hann ætlaði þó ekki að ásaka Podence um neitt.
Podence svaraði fyrir atvikið á Instagram-síðu sinni.
„Þar sem að ég hef verið ásakaður um eitthvað sem ég gerði ekki, ætla ég segja mína hlið.
Ég hrækti ekki á leikmann Nottingham Forest. Ég er að segja sannleikann, ég myndi aldrei gera neitt þessu líkt, hvað þá við annan fótboltamann. Takk fyrir.“
Enska knattspyrnusambandið hefur kært Podence eftir að hafa séð upptökur af atvikinu og gæti hann því átt yfir höfði sér leikbann.