Pep Guardiola, stjóri enska knattspyrnuliðsins Manchester City, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Erling Haaland sé búinn að jafna sig af meiðslum sem voru að hrjá hann og sé klár í að vera í leikmannahópi liðsins gegn Southampton um helgina.
Haaland missti af síðasta leik City gegn Liverpool vegna meiðsla og lék ekki með norska landsliðinu í undankeppni EM í vikunni þar á undan en Guardiola segir hann vera kláran í slaginn fyrir helgina.
„Hann hefur æft vel síðustu tvo daga og verður klár.“
Haaland hefur verið ótrúlegur á tímabilinu en hann er lang markahæsti leikmaður deildarinnar með 28 mörk. City-liðið virtist þó ekki sakna hans mikið gegn Liverpool en það vann sannfærandi sigur, 4:1.