Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru komnir aftur upp í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu eftir árs fjarveru eftir góðan útisigur á Middlesbrough í B-deildinni í kvöld, 2:1.
Þó Burnley eigi enn sjö leiki eftir er liðið komið með 19 stiga forskot á Luton sem er í þriðja sætinu og á sex leiki eftir. Jóhann og félagar hafa aðeins tapað tvisvar í 39 leikjum á tímabilinu og haft umtalsverða yfirburði í deildinni.
Burnley er með 87 stig á toppnum, Sheffield United 76, og síðan koma Luton með 68 stig og Middlesbrough 67 í þriðja og fjórða sætinu.
Ashley Barnes kom Burnley yfir á 12. mínútu en Chuba Akpom jafnaði fyrir Middlesbrough úr vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks.
Connor Roberts skoraði síðan markið sem réð úrslitum á 66. mínútu.
Jóhann Berg lék fyrstu 79 mínúturnar með Burnley en hann spilaði með liðinu í sex ár í úrvalsdeildinni, frá 2016 til 2022. Hann er fimmti leikjahæsti Íslendingurinn frá upphafi í deildinni með 136 leiki og sá sjötti markahæsti með níu mörk.