Jürgen Klopp, stjóri enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hrósaði Mikel Arteta, kollega sínum hjá Arsenal, á blaðamannafundi í morgun. Liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Arsenal er með átta stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en liðið hefur leikið algjörlega frábærlega á tímabilinu. Gengi Liverpool hefur hins vegar verið slakt, en liðið er í áttunda sæti deildarinnar með 43 stig, 10 stigum frá Meistaradeildarsæti.
„Mikel hefur verið að búa þetta lið til í nokkur ár og augljóslega er útkoman góð. Það er gaman að horfa á liðið, það spilar virkilega góðan fótbolta með frábæra leikmenn innanborðs.
Við getum sem betur fer ennþá sagt: Þetta er Anfield, við erum á heimavelli. Við þurfum áfram að reyna að sýna eitthvað annað en við höfum gert. Við þurfum framfarir og munum reyna að gera það á sunnudaginn.
Ég skil vel að það sé erfitt fyrir ykkur að finna nýjar spurningar fyrir mig í hverri viku því staðan er alltaf sú saman, en trúið mér, það er ennþá erfiðara að finna ný svör.“