Graham Potter, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, verður ekki lengi atvinnulaus ef marka má fregnir frá Englandi í dag.
The Telegraph segir að West Ham muni ræða við Potter um að taka við sem knattspyrnustjóri félagsins en David Moyes er afar valtur í sessi þar eftir slæmt gengi liðsins í úrvalsdeildinni í vetur.
West Ham steinlá, 1:5, fyrir Newcastle í fyrrakvöld og hangir aðeins á markatölu fyrir ofan fallsæti deildarinnar.
Pottter mun hafa hafnað boði um að taka við liði Leicester, samkvæmt enskum fjölmiðlum, en þar er leitað að arftaka Brendans Rodgers.