James Milner er á förum frá Liverpool í sumar þegar samningur hans við liðið rennur út.
Það er enski blaðamaðurinn Ben Jacobs hjá CBS sem greinir frá en hann sagði frá þessu við miðilinn GIVEMESPORT. Milner er 37 ára gamall og hefur verið í herbúðum Liverpool frá árinu 2015.
„Milner myndi alveg vilja vera áfram en frá sjónarhóli Liverpool hefur þetta alltaf verið hans síðasta tímabil hjá félaginu. Hann er mikilvægur leikmaður í hópnum, bæði innan vallar og utan, en sá tími er kominn að það er best fyrir báða aðila að hann fari annað.“
Milner bætist því í hóp þeirra Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain sem munu einnig yfirgefa Liverpool í sumar. Liðið mun því missa þrjá miðjumenn og er ljóst að Jürgen Klopp þarf að styrja miðsvæði liðsins í sumar.
Með því að koma inná sem varamaður gegn Chelsea á dögunum fór Milner uppfyrir Frank Lampard á lista þeirra sem hafa leikið flesta leiki í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi. Hann hefur nú leikið 610 leiki, 42 minna en Gareth Barry sem er efstur. Það verður því að teljast líklegt að Milner fari í lið í úrvalsdeildinni til að reyna að bæta metið, og er uppeldisfélag hans, Leeds, afar líklegur áfangastaður nái það að halda sér uppi.