Manchester United vann Everton, 2:0, í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta á Old Trafford í dag.
Fyrri hálfleikurinn var í algjörri eign Manchester-liðsins sem fékk ótalmörg færi. Leikmenn United komust sífellt inn fyrir vörn Everton og var ótrúlegt hversu mörgum færum heimamenn klúðruðu.
Það kom þó ekki að sök því á 36. mínútu þræddi Jadon Sancho skoska miðjumanninn Scott McTominay í gegn og hann hamraði boltann á nærstöngina framhjá Jordan Pickford, markverði Everton, 1:0, sem voru hálfleikstölur.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en United hafði tök á leiknum allan tímann. Á 71. mínútu tvöfaldaði svo varamaðurinn Anthony Martial forystuna fyrir United eftir afleit mistök hjá Seamus Coleman.
Rashford vann boltann af Íranum sem missti hann undir sig og renndi honum á Martial sem setti boltann framhjá Pickford í markinu, 2:0, og úrslitin gott sem ráðin.
Christian Eriksen kom svo inná í liði Manchester United en hann hefur ekki spilað síðan í lok janúar vegna meiðsla. Slæmu fréttirnar eru hinsvegar þær að Marcus Rashford haltraði af velli og gæti verið meiddur í einhvern tíma.
United er nú með 56 stig í þriðja sæti deildarinnar en Everton er með 27 í því 16.