Arsenal tapaði stigum á Anfield í frábærum leik

Roberto Firmino fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Roberto Firmino fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Paul Ellis

Liverpool og Arsenal skildu jöfn, 2:2, í stórkostlegum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Arsenal byrjaði leikinn talsvert betur og tók það liðið ekki nema 8 mínútur að komast yfir. Gabriel Martinelli slapp þá einn gegn Alisson og potaði boltanum með tánni framhjá honum, undir pressu frá varnarmönnum Liverpool. 

Á 17. mínútu fékk Gabriel Jesus gott færi í liði Arsenal en hann náði þá ekki að stýra fyrirgjöf Bukayo Saka í netið. Jesus átti þá gott hlaup á fjærstöngina en var skrefi of seinn og þurfti að teygja sig í boltann.

Andrew Robertson fékk svo frábært færi þremur mínútum síðar en Fabinho átti þá gullfallega sendingu inn fyrir vörnina í hlaup Skotans. Hann tók boltann með sér en skotið var ekki nægilega gott og fór framhjá fjærstönginni.

Arsenal tvöfaldaði svo forystuna á 28. mínútu með afar einföldu marki. Liðið sótti þá hratt upp vinstri vænginn þar sem Martinelli fékk boltann. Hann smellti boltanum fyrir markið þar sem Jesus var aleinn og skallaði hann í netið. Þetta leit ótrúlega auðveldlega út en var engu að síður virkilega vel gert.

Liverpool náði að minnka muninn á 42. minútu og var það Mo Salah sem skoraði. Diogo Jota fékk boltann þá vinstra megin í teignum, lagði hann fyrir markið á Jordan Henderson sem ýtti honum áfram á fjærstöngina þar sem Salah mætti og skoraði af stuttu færi.

Eftir markið var mikill kraftur í heimamönnum sem hélt áfram í síðari hálfleik. Á 52. mínútu braut Rob Holding klaufalega á Diogo Jota innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Salah fór á punktinn en setti boltann framhjá markinu, önnur vítaspyrnan í röð hjá Egyptanum sem hittir ekki markið.

Pressa heimamanna minnkaði ekkert eftir vítaspyrnuna. Liðið sótti án afláts og Arsenal-liðið var í miklum vandræðum. Sóknaraðgerðir Liverpool-liðisins báru árangur á 87. mínútu en Trent Alexander-Arnold gerði þá frábærlega á hægri kantinum þegar hann klobbaði Olekssandr Zinchenko áður en hann lyfti boltanum á fjær. Þar kom varamaðurinn Roberto Firmino og skallaði boltann í netið og jafnaði þar með metin.

Fjörið var þó ekki búið enn því Aaron Ramsdale átti heldur betur eftir að koma Arsenal til bjargar í uppbótartímanum. Fyrst varði hann frá Mohamed Salah sem reyndi að skrúfa boltann í fjærhornið úr teignum og svo náði hann á einhvern ótrúlegan hátt að bjarga frá Ibrahima Konate þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Konate fékk þá skallasendingu frá Darwin Núnez í teignum og reyndi að kassa boltann í netið af stuttu færi, en Ramsdale náði að bjarga. 

Lokatölur á Anfield því 2:2 í algjörlega mögnuðum leik. Arsenal er á toppi deildarinnar með 73 stig, sex stigum á undan Manchester City sem á leik til góða. Þá eiga liðin eftir að mætast innbyrðis. Liverpool hins vegar er í áttunda sæti deildarinnar með 44 stig.

Gabriel Martinelli fagnar því að hafa komið Arsenal yfir í …
Gabriel Martinelli fagnar því að hafa komið Arsenal yfir í leiknum. AFP/Paul Ellis
Liverpool 2:2 Arsenal opna loka
90. mín. Kieran Tierney (Arsenal) á skot framhjá Lætur vaða fyrir utan teig en skotið fer framhjá fjærstönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert